Friday, July 26, 2013

Föstudagur, Húrra!


Föstudagar eru líka spennandi þó maður sé í fríi. Ég hef margt á minni könnu nú um helgina. Hef hugsað mér að gefa mér smá tíma í að skipuleggja síðustu 2 vikurnar í fríi. Svo ég geti nú notið þeirra framm í rauðann dauðann. 

Auðvitað ætlum við skötuhjúin í smá bíltúr út á land og elta sólina. Ég ætla að setjast niður og klára framhaldssöguna. Svo eru heimsleikarnir í Crossfit um helgina og ég er mjög spennt. Ísland er nú þegar búin að eignast heimsmeistara 2013 í aldursflokkinum 55-59 ára.  

Spennandi helgi frammundann.


Tuesday, July 23, 2013

Sól sól skín á mig!



Loksins kom sólin og góða veðrið í höfuðborgina. Ég var svo heppin að yndisleg vinkona mín bauð mér í kaffiboð í Hellisgerði í dag. Hún er alveg ótrúlega skemmtileg og uppátektarsöm, stund sem góðri vinkou hressir alltaf upp á sálina.



Hvað varðar lífið og tilveruna er ég aðeins á eftir í blogg planinu. Þessi sól sem fór að skína í dag setti mig alveg út af laginu, öll vinnuplön fuku út um gluggann og ég hljóp bara úr í góða veðrið. Er það nokkuð skrítið? Ég setti mér samt  það loforð að vera afkastamikill þessa viku, einfaldlega af því að þá er ég almennt ánægðari með sjálfa mig. Hvað varðar framhaldssögunna hef ég ekki haft eirð í mér til að setjast niður og klára hana. En er kominn af stað og set inn seinni hlutann um þessa helgi. Svo nú er bara að nota kraftinn frá sólinni og taka vikuna með trompi.

Njótið og nýtið!

Friday, July 19, 2013

Föstudagur!


Lúpínur: lífga alveg einstaklega vel upp á landið.

Yndislegt hvað dagarnir renna í eitt þegar maður er að dúlla sér í sumarfríi. Síðustu tveir dagar hafa verið soldil áskorun þar sem að ég hef ekki verið með neitt fast plan og það sem ég hef ætlað mér að gera hefur svo frestast. Það er eitthvað svo skrítið að hafa ekkert að gera. Held samt að skáparnir á heimilinu séu bara fegnir þar sem að þeir eru núna ekki gubbandi óþarfa drasli og fatnaði. Svo er eldhúsið líka orðið skínandi og ilmandi af hreinleika.


Eitt af uppáhalds: Pandalakkrís og súkkulaðiðhúðaðar hnetur. Gott ferðanesti, mmmm....

Í kvöld ætlum við skötuhjúin svo að fá okkur bíltúr út á land og skoða okkur um fram á morgun. Ég hef aldrei verið dugleg að ferðast um landið svo við ákváðum að taka svona helgarferðir yfir sumarið, ég er mjög ánægð með það. Ég er núna að fara að undirbúa nesti og fleira gotterí til að hafa yfir ferðinni.

Í gær var ég að lesa blogg hjá hressum stelpum sem eru með 30 daga ,,self portrait challege" gæti verið skemmtilegt að dúlla sér við........ Svona fyrst maður er svona eirðalaus.

Við sjáum til. Góða helgi

Thursday, July 18, 2013

Sumarfrí og sætar kökur

Ótrúlegt hvernig dagarnir líða þegar maður er í sumarfríi. Í gær var mánudagur og nú er fimmtudagur. 





En í dag fannst mér vel við hæfi að gera eitthvað gómsætt í kaffitímanum svona í tilefni af því að við skötuhjúin erum bæði heima. Þar sem ég er alltaf að leita leiða til að hafa mataræðið af hollari gerðinni varð ég mjög spennt þegar ég fann æðislega uppskrift á facebook síðu Heilsuréttir fjölskyldunar af ávaxtaköku. Ég get alveg sagt að ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Svo er hún svo saðsöm maður borðar ekki of mikið í einu.




Sunday, July 14, 2013

Sunnudags saga.

Hérna kemur fyrri hluti af smásögu sem ég er að vinna í

Draumur á jónsmessunótt


Mig hefur alltaf langað til að synda meðal höfrunga. Vera í einhverju heitu landi með fallegri strönd og svona kórallrifum sem hægt er að kafa meðfram. Skoða marglita fiska, fara svo upp á ströndina og liggja í makindum á bikiní í sólinni. Engar áhyggjur. Lífið myndi bara ganga sinn vanagang. Tími skipti engu máli. Peningar ekki heldur, maður myndi bara lifa á því sem kæmi til manns með tilfallandi vinnu, skipti ekki máli þó það væri lítið. Einhvernvegin væir lífið svo áreynslulaust þarna.

Mig hefur líka alltaf langað til að verða ljósmyndari. Einhver sem hefur næmt auga fyrir smáatriðum. Listrænt augu og auga fyrir fegurðinni í hversdagleikanum. Ég myndi eiga stúdíó með fullt af als konar græjum og flottri tölvu. Svo myndi ég ferðast um landið, fara til framandi borga og taka myndir í veislum hjá vinum og ættingjum. Allir myndi elska myndirar mínar. Ég héldi sýningar í vinælum listagalleríum og myndirnar mínar seldust eins og heitar lummur.

Ég ætlaði líka alltaf að klára mennaskóla og fara í listaháskóla í útlöndum. Finna mér einhvern frægan skóla í skandinavíu eða bara hvar sem er. Þar hefði ég kynnst fullt af fólki sem hugsaði eins og ég. Svo hefðum við ferðast um allt saman í fríum. Stutt hvort annað í náminu og unnið verkefni saman. Við hefðum orðið eins og ein stór fjölskylda. Svo hefðum við heimsótt hvort annað eftir að náminu lyki. Farið á sýningar hvors annars og hjálpað hvort öðru að komast á framfæri. Ég hefði svo ekki þurft að fara heim til Íslands strax eftir að námi lyki. Ég hefði búið lengur úti og farið að vinna í listageiranum. Fengið að læra hjá einhverjum frægum ljósmyndara og flutt svo heim til þess að opna mitt eigið stúdíó.

En ég kláraði ekki einu sinni fyrsta árið í menntó. Mér fannst alveg gaman, námið var skemmtilegt og mikið félagslíf. En ég bara passaði ekki inn í bekkinn. Stelpurnar voru allar svona skvísur, rosa flottar. Ég var bara of venjuleg, mig langaði ekkert að vera svona uppsstríluð og klædd eins og ég væri að fara á árshátið á hverjum degi. Ég nennti ekki að blása og slétta á mér hárið eftir leikfimi. Ég hafði enga þörf á að sýnast verða þroskaðri en ég er svo að strákarnir í eldri bekkjunum hefðu áhuga á mér. Svo fannst mér lika asnalegt að láta eins og ég væri vittlaus bara af því að það væri ekki nógu flott að vilja læra og ganga vel í náminu. Þannig að ég varð bara pínu útundan. Ég átti þó tvær góðar vinkonur í bekknum, við fórum saman á böllinn og félgaslífið í skólanum. Samt fannst mér ég aldrei alveg passa þarna inn. Þær höfðu þekkst áður en þær byrjuðu í skólanum og ég var alltaf þriðja hjólið. Ég nennti heldur ekki alltaf að leggja mig fram við að sýna því sem þær voru að tala um áhuga.

Svo var komið að fystu jólaprófunum í skólanum og það var hefð fyrir að halda ball síðasta skóladaginn fyrir upplestrarfrí. Vinkonur mínar ætlðuð að fara, en mig langaði ekkert sérstaklega. En einhvernveginn náðu þær að sannfæra mig að fara og svo var mamma alltaf að hvetja mig til að gera eitthvað meira en bara að læra. Ballið var alveg skemmtilegt, eða bara eins og venjulega. Og það var á þessu balli sem ég hitti hann. Hann var ótrúlega myndalegur. Ljóst hár, blá augu, meðal hæð, hann var klæddur í jakkfatabuksur, hvíta skyrtu og vesti. Hann var bara með sér einhvern ljóma eins og í gamalli bíómynd. Hann gekk í átt til mín og augu okkar mættust. Ég kikknaði í hnjánum, núna skyldi ég loksins hvað er alltaf verið að syngja um í væmnum ástarlögum. Við fórum að spjalla saman og ég gleymdi alveg tímanum. Hann hafði svo mikinn áhuga á mér og öllu sem ég hafði verið að gera, sem var samt ekki neitt. Ég var bara venjuleg stelpa í menntaskóla. Vinkonur mínar voru að fara heim og ég þrátt fyrir að vita betur varð eftir. Þarna á þessu augnabliki ákvað ég að taka áhættu og lifa fyrir augnablikið. Hann fylgdi mér heim og við spjölluðum framm á nótt. Það var ótrúlegt hvað við áttum margt sameingnlegt. Við ákváðum að hittast aftur daginn eftir. Ég gat ekki beðið. Þegar ég kvaddi hann fann ég fyrir eftirvæntingu að hitta hann aftur. Ég svaf ekkert alla nóttina hugsaði stanslaust um það sem hann sagði, svipbrigðinn hans, röddina, augun, hárið hans. Allt var þetta eins og í draumi eða bíómynd.

Daginn eftir átti ég að vera að læra fyrir sögupróf. En það eina sem ég gat hugsað um var að ég ætlaði að hitta hann um kvöldið. Dagurinn ætlaði aldrei að líða. Við höfðum ákveðið að hittast klukkann níu svo að ég gæti nýtt daginn í að læra. Ég vildi ekki að mamma vissi hvert ég væri að fara svo ég sagðist bara hitta hann fyrir utan húsið. Rétt fyrir níu sagði ég mömmu að ég væri að fara í göngutúr og flýtti mér út svo hún sæi ekki að ég væri ekki klædd til að fara í gögngutúr. Hann beið fyrir utan og ég fann að hjartað taka kipp.

Þegar við höfðum gegnið smá stund spurði hann hvort mig langði til að hitta vini hans. Ég varð upp með mér en samt sem áður svolítið hrædd að þeim myndi ekki líka við mig. Þorði samt ekki að segja neitt nema já. Vinir hans voru hópur af krökkum sem voru öll álíka forvitnileg og hann. Þau virtust öll full af orku og svoldið villt. Tóku mér eins og ég væri ein af hópnum og mér fannst ég eiga heima þarna. Með honum og þessum krökkum. Hópurinn var á leiðinni í bæinn og spruðu hvort við ætluðum með. Hann leit á mig og tók í höndina mína, mér fannst þetta kvöld fullkomið. Við lögðum af stað niður í bæ.



 Framhald eftir viku..........

Friday, July 12, 2013

10 Lífsreglur.



Stundum þarf maður bara smávegis auka leiðsögn í tilverunni. Það koma dagar þar sem mér finnst ekkert ganga upp hja mér. Og það er allt í lagi. Ég fann þessi tíu atriði á facebook síðu sem mér finnst gott að lesa yfir þegar ég er orðin alveg rignluð. 



Tuesday, July 9, 2013

Litagleði og Gerðu-það-sjálf.


Ég setti á listann minn yfir hluti sem mig langar að gera í sumar að vera meira í litum og að mig langaði að búa til hluti. Svona DIY eða do-it-yourselve. Á netinu eru als kyns vefsíður og blogg með fullt af mjög einföldum og skemmtilegum hugmyndum sem er auðvelt að framkvæma. Og þegar ég sá þessa hugmynd sá ég framm á að ég gæti slegið tvær flugur í einu höggi. Þarna var kominn leið fyrir mig til að fá meiri liti á mig og búa eitthvað skemmtilegt til sjálf. Svo þegar ég skellti mér í Söstrene Grene til að kaupa trékúlur og málningu sá ég að það var hægt að kaupa pakka af plastkúlum í als konar litum. Svo þetta varð næstum því of auðlvelt.






Sunday, July 7, 2013

Melónur, frostpinnar og sól í hjarta.






Ég er mikill sælkeri og hef alltaf elskað ís. 

Þar sem að sólin hefur tekið þá ákvörðun að láta lítið sjá sig undanfarið og Krónann var með vatnsmelónur á 60% afslætti ákvað ég að búa mér til sumarlega melónu frostpinna. Þetta er mjög einfalt, fersk vatnsmelóna, safi úr lime og smá hunanng til að sæta. Mjög frískandi og færir manni sólina í hjartað.

Wednesday, July 3, 2013

Halló Sumarfrí!




















Já ég er núna kominn í 5 vikna sumarfrí úr vinnunni. Get ekki beðið að hlaða batteríin og njóta, njóta, njóta!

Monday, July 1, 2013

Að horfa á jákvæðu hliðarnar.

Undanfarið hef ég allt of mikið verið að einblína á það sem betur mætti fara í lífnu. Ég hef eitt miklum tíma í að bera mig saman við aðra og horfa á það sem ég hef ekki áorkað. En þó svo að gott sé inn á milli að líta gagrýnum augum á sjálfan sig má það ekki vera þannig að það dragi mann niður. 

,,Lífið snýst um að njóta þess sem maður hefur meðan maður vinnur að því sem mann langar í."  sagði einn mjög þekktur lífsspekingur.

En stundum er það bara allt of erfitt og ég sit föst í neikvæðum hugsunum sem draga mig bara niður. 

Ég fékk mjög góðar ráðleggingar um daginn þegar ég var komin á þann stað að þessar niðurrifshugsanir þrengdu að mér á þann hátt að ég var við það að springa: Lifa bara mínútu fyrir mínútu, dag fyrir dag, viku fyrir viku. Hætta að horfa á heildina heldur horfa bara á núið. 

Þó að ég sé auðvitað með markmið og plön. Þá snýst þetta ekki svo mikið um heildarmyndina heldur meira hvernig manni líður akkúrat í dag. Stundum er gott að lifa bara fyrir augnablikið.